Dagbók vika 3. Fimmtudagur- Sunnudagur

Tíminn flýgur og lítill tími gefst til skrifa. Ég hélt það yðri auðvelt að skrifa daglega og þá hvern dag fyrir sig, en það hefur ekki tekist hingað til.

Ég fer hratt yfir sögu núna því dagarnir eru margir.

Fimmtudagur:

Morgun: Quinoa grautur - tvisvar fyrir og eftir labb.

Hádegi: Afgangur af Grænmetissúpu og tvær speltbrauðsneiðar

Ég man ekki hvað ég borðaði meira þennan daginn því ég gleymdi að skrifa það hjá mér, en ég veit bara að það var svipaður matseðill og dagana á undan. Var á miklum þvælingi þennan dag, ungbarnanudd, brjóstaráðgjöf og búðarferðir, svo við mæðgur vorum dauðþreyttar. Svo þreyttar að daginn eftir ákváðum við að sleppa Krílasálma tónlistarnámskeiðinu og sofa út.

Föstudagur:

Svaf út, til 10 amk. Það var yndislegt og truflun í algjöru lágmarki. Drengir og kallinn tiltölulega lágværir í morgunsárið og hundurinn gelti ekkert :)

Fór svo í langann og strangan labbitúr með Mæju systir, færðin var frekar þung svo þetta var hálfgert "kerrupúl" og annsi hressandi. Svona morgunstundir út undir berum himni og spjall um heima og geima við siss er þerapía í sjálfu sér, góð leið til að af stessa sig :)

Svo sótti ég mann og börn og dreif alla heim að pakka í töskur, því helginni skildi eyða í fæðingarbæ mínum Blönduósi.

Ég man ekkert hvað ég át þennan daginn, nema grænmetissúpuna með siss í hádeginu og Smootie um morguninn, en ég hélt mér við prógrammið og tók með mér nokkrar nauðsynjar í poka til Blönduós...Haframjólk, delba brauð, hummus, hnetubland og lifur.

Hingað til hefur það að fara Norður til Pabba, Strúnu og Ömmu elskulegrar að ég kem undantekningalaust heim amk 2 kg þyngri og þetta eru engar ýkur. Mataræðið á Blönduósi er ekki eins og ég er vön, þetta er svona ekta sveita stemming og heimsóknin gengur alltaf út að það að láta troða í sig endalaust og taka endalaust við. Og það byrjaði ekkert öðruvísi í þetta sinn...
Það var hlaðborð við komu okkar kl 21:40, ég var svöng og fékk mér Delba með hummus og te, en svo kallaði ein sneið af Döðlubrauði með smjöri á mig og ég lét eftir því og át það. Já varla lent og ballið byrjað.

Laugardagur til lukku...eða hvað

Morgun: Ég er staðföst og fæ mér hafragraut með haframjólk og kanil. Hinir gúffa í sig Lucky Charms, ég er eins og krakki og finnst það gott, horfði kallinn minn horn auga meðan hann kjammsaði á því og marg bauð honum hafragraut sem hann afþakkaði pent.

Hádegi: Steiktur fiskur með kartöflum og lauk. Á boðstólnum var líka hrásalat, kokteilsósa og remúlaði. Ég bræddi smjör út á fiskinn en fékk mér smá hrásalt með...ekki annað grænmeti í boði. Pabbi át fiskinn með smjöri, kokteilsósu og remúlaði....svo skilur hann ekkert í þessari ístru :S

Svo kom kaffi: Hjá ömmu...og aldrei þessu vant voru ekki tonn af kökum og sætabrauði á boðstólnum, amma hafði keypt fullt af bláberjum, jarðaberjum, vínberjum og ferskjum, skar niður og þeytti rjóma...en svo kom ísinn, hún á alltaf ís. Og ég hefði getað látið ávextina og rjóman duga...en fékk mér slettu af heimlöguðum ís,annað hefði verið móðgun. Viti menn...ég var varla búin að kyngja ísnum þegar ég var orðin þreytt og orkulaus...syfjuð sem ég hef ekki verið í langan tíma.

Svo kom kaffi no 2: Heima hjá Pabba, þar var borin fram dásamleg döðluterta með heitri karmellusósu og rjóma. Ég varð að fá mér...annað hefði verið móðgun en ég varð bara þreyttari...alveg búin á því.

Kvöldið; Þorrablót og ég kveið því. Mér finnst þorramatur ekki góður en vonaðist til að fá saltkjöt og kannski smá harðfisk. En á blótinu var ekkert saltkjöt og ég varð að sætta mig við smá hangikjöt (ekki spennt fyrir því), smá síld (hún er góð, en alltaf í sykurlegi), smá hákarl (það er bara hefð), smá harðfisk (hann var bragðlaus)smá laufabrauð (það var seigt) svo ég bara demdi mér í sviðasultuna, borðaði vel af henni þó ég hafi í raun aldrei étið hana. Og vatn meðan hinir drukku úr belju...þýskri belju.

Mig langar að minnast á eitt, ég sat á móti sænskri stelpu, hún var að smakka þorramat í fyrsta skipti og mikið grín og gaman í kringum það. En svo fór hún að fyrra bragði að tala um hvað íslendingar notuðu mikinn sykur, að það væri sykur í öllu. Og hún benti á það sem var á disknum hennar, rófustöppuna, kartöflumúsina,síldin, eplasalatið, rúgbrauðið og hugsanlega flatkökurnar og laufabrauðið...allt sykrað. Og hún sagði að í Svíþjóð væri ekki notaður svona mikill sykur í allt. Þetta er alveg rétt og ég hef oft spáð í þetta, við stráum sykri á slátur og mamma sykraði gúrkurnar í gamla daga, við átum appelsínur með sykurmolum, rabbabara með sykri, sykrum út á kornflex og cherrios, sykur í kaffi og te, sykur á pönnsur og vöfflur, sykur út á grauta, sykur út á skyr...við erum sennilega sykurætasta þjóð í heimi.

Nema hvað, fór heim af blóti með ónot í maga og eyddi svo "þorranum" af nóttinni á dollunni með pípandi og stakk svo hausnum í dolluna og spjó. Og ég get sagt það eins og ég sit hér og skrifa "ég mun aldrei borða þorramat aftur" æld sviðasulta er ógeðsleg. Þetta var skelfilegt nótt, því á milli klósettferða gaf ég brjóst...og svo ég var ekki heima hjá mér. Mér tókst að draga pabba og Strúnu með mér í svaðið og undir morgun fórum við til skiptis á klósettið en okkur tókst til allrar lukku að forðast alla árekstra og slys.

Sunnudagur:

Morgun:Heilsan mjög tæp, fékk að sofa aðeins lengur, kallinn tók baby vaktina, þegar ég vaknaði gat ég drukkið te og smá kristal með sítrónu.

Kaffi: Ákvað að "drulla" mér heim, kom ristabrauði og ávaxtasafa niður, rétt til að fá orku fyrir heimferð. Þetta er fyrsta Blönduós ferðin sem ég kem heim léttari en þegar ég fór...skildi allt gummsið eftir í klósettinu á Húnabrautinni.

Kvöld: Var svo ánægð að komast í safapressuna mína aftur...hún er lífsnauðsynleg í veikindum.
Safi: Epli, sítróna, sellerí og engifer... gerir kraftaverk og mér leið strax MIKIÐ betur.
Seinna: Haframjöl, rúsínur, xylitol, kakó og haframjólk - það sem ég hafði lyst á.
Enn seinna: Nartaði í smá popp og drakk meiri safa, svo skipaði Högna mér í bólið :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband