Hjálparmeðöl og líðan...

Hér kemur listi yfir það sem ég hef gert til að draga úr verkjum og líða betur:

Matur: Breytt mataræði - Án Sykurs númer 1,2 og 3. Held að það hafi mest að segja. Mínus hveiti og mínus mjólk að mestu. Þetta ætla ég að reyna í einhvern tíma og prófa mig svo áfram, hvort ég þurfi að taka fleira út eða bæta einvherju við.

Hreyfing: Ég að byrja daginn á klukkustundar göngutúr með vagninn og hundinn, ef ég kemst ekki fyrir hádegi reyni ég að fara seinnipartinn.
Er búin að skrá mig í STOTT pilates - mömmutíma hjá Jafnvægi í Garðabæ. Byrja í byrjun Feb og hlakka mikið til. Svo reyni ég að muna að gera smá teygjur og æfingar fyrir háls og herðar einhverntíman yfir daginn.

Bætiefni: Hér gæti ég gert helling...en þar sem ég er með barn á brjósti tek ég bara það sem ég tel Ok. Fiskiolía 2 msk á dag, D-vítamín 1 msk á dag, triple magnesínum complex (úr heilsubúð á Njálsgötu)3 hylki fyrir svefn, svo hef ég verið að taka járn, en það er búið...þarf að kaupa meira.
Hómópati og nuddkona sem ég þekki gaf mér Rus Tox remedíu sem ég reyni að muna að taka 2var á dag. Ég er reyndar með mjög lélega meðferðarheldni og gleymi oft að taka í töflur sem ég á að taka svo þetta er svona 90% í lagi hjá mér núna. Uppá hillu býður svo Life Extention (heyrði frá góðri konu að það svínvirkaði) þarf að ráðfæra mig við lækni áður en ég byrja á því.

Svefn: Ég tók á svefnmunstri Högnu minnar og er komin með nokkuð góða rútínu núna. Hún fer að sofa ca kl 10 á kvöldin og þá er best fyrir mig að fara að sofa um leið og hún svo ég nái amk 5 tímum straight, svo vakna ég 2var á nóttunni þar til kl er 9 en þá fer ég á fætur og byrja daginn.
Ég hef tekið eftir því að þegar ég vakna í fyrsta sinn eru verkirnir ekkert mjög slæmir en eftir því sem ég vakna og sofna oftar verð ég stífari og aumari í liðum í hvert sinn. Það er greinilegt að góður svefn hefur mjög mikið að segja og ég get varla beðið þar til maður getur farið að sofa heila nótt. Geðlæknirinn minn ráðlagði mér að láta minn heittelskaða taka nætur vaktina einu sinni í viku og gef þá bara dömunni úr pela,það hljómar mjög vel og verður reynt fljótlega.

Andlega hliðin: Ég fer til frábærrar konu sem er Geðlæknir að ment, hitti hana núna á ca 2ja vikna fresti. Það hefur reynst mér alveg ótrúlega vel, sérstaklega fyrst eftir að ég veiktist. Þá hafið verið mjög mikið andlegt og líkamlegt álag á mér í langan tíma og mörg "issue" í gangi. Þetta gat ég allt rætt við hana og hún kom með góða punkta og tillögur af lausnum sem ég hef getað nýtt mér. Það er líka bara gott að hafa fagmanneskju með sér í baráttunni, hún veit nákvæmlega um hvað þetta snýst og sýnir mér mikinn skilning, sem fæst ekki alls staðar...þó fólkinu manns sé alls ekki sama.
Svo er það nú bara að gera eitthvað sem er jákvætt og skemmtilegt. Ég fer með Högnu litlu í ungbarnanudd, það er rosa kosý stund hjá okkur stelpunum og svo förum við líka á Föstudagsmornum á tónlistanámskeið fyrir lítil kríli og það er sko gaman :) Átta lítil kríli og mömmur að syngja, dansa og leika, yndislegt alveg.
Svo reyni ég að hafa ekki of miklar áhyggjur af húsverkum og missa mig ekki þó allt sé í drasli hjá drengjunum, draslið fer ekkert...nema ég fjarlægi það :P Draga úr stressi, ætla mér ekki um of...það er sko challenge og erfitt að fara eftir.

Annað: Heit böð og sturtur - fer bara ekki í gang á morgnana fyrr en eftir sjóðheita sturtu. Passa að verða ekki kalt, vera með vettlinga og í hlýjum sokkum í labbitúrum og annari útivist. Er tífalt verri daginn eftir ef mér verður kalt.

Líðan: Breytt mataræði hefur haft góð áhrif, verkirnir eru alls ekki farnir, en þeir eru minni og dagarnir eru nokkuð góðir en vantar þó nokkuð uppá að næturnar séu í lagi, en þar kemur svefnleysið sterkt inn.
En ég finn að ég er orkumeiri, og þreytan ekki að sliga mig. Það er jákvætt og vel þess virði að kæfa sykurpúkann fyrir það :)

Svo er bara að vera jákvæð og líta á veikindinn sem verkefni til að kljást við og leysa.
Það hlýtur að vera ástæða fyrir að heimurinn henti þessu í mig....tútilúúú


Matardagbók síðustu viku...

Þó nýtt líf hafi hafist fyrir tæpum tveiur vikum ætla ég að byrja á að birta matardagbók nú líðandi viku og svo hér eftir.

Til að byrja með er fæðan einföld og sumum gæti þótt hún einhæf, en ég er farin að gera tilraunir með nýja uppskriftir til að auka fjölbreyttni og draga úr líkum á uppgjöf. Ég er td núna að jappla á einni nýrri frumsamdri...annsi góður grautur hjá mér barasta.

Vika 2.

Máudagur:

Morgun: Nýkreistur safi - epli, rauðrófa, sítróna, gulrót og gúrka. Volgt spínat með Ólífuolíu og tvö "spæld" egg með mjúkri rauðu.

ATH: Þessi safi er í miklu uppáhaldi hjá mér, ég nota smá gul/græn epli sem passa akkúrat í djúser opið og alltaf sítrónu, þá er safinn basískari og oxast síður + epli og sítróna gera alla grænmetissafa góða sama hvað er í þeim. Spínatið hita ég þurrt á pönnu, þegar það hitnar verður það mjúkt og safaríkt og með smá skvettu af ólífuoliu verður það afar bragðgott. Ég passa mig á að hafa alltaf eitthvað prótein í morgunmatnum mínum, því annars á ég á hættu að fá blóðsykursfall þegar líður á morgunninn (bý til mikið og geymi í kæli).

Hádegi: Tvö stykki Delba brauðsneiðar rauðu pestói og avocado (lárperu) og sami safi og um morguninn.

Ath: Delba brauð eru þýsku brauðin í glæru kössunum með gula lokið sem fást nú alls staðar, þau eru súrdeigsbrauð sem innihalda eingöngu rúg, vatn og smá salt og fræ sum hver. Ég bý til mitt eigið pestó, það er einfalt og súper gott, nota það MIKIÐ. Avocadoið stappa ég á brauð, ótrúlega gott álegg.

Snakk: Hneturbland - Valhnetur, cashew, pecan og goijiber. (blanda sjálf og geymi í skál á borðinu...handhægt.

Kvöld: Taco veisla húsins, maís-taco, taco sósa, paprika, spínat, refried-beans, ostur, sýrðurrjómi, tómatar og hakk. Jurta-Te bolli eftir mat.

ATH:Ég reyni að elda eitthvað sem ég get borðað með fjölskyldunni á kvöldinn og aðlaga vinsæla rétti að mínu mataræði ef það er hægt. Þarna notaði ég ost og sýrðan í míkróskópik magni, en hafði smá með.

Þriðjudagur:

Morgun: Tvö spæld egg og spínat (eins og áður) og góðann nýkreistan safa með.

Hádegi: Tvær spelt brauðsneðiar með pestó og glas af safa morgunsins.

Snakk : Óvenjulegt en fékk í búðinn craving í svínakjöt með puru og keypti lítinn heitann slíkann bita.

Kvöld: Wog kjúklingur með miklu grænmeti og tamari sósu.

Snakk: Hnetubland

Miðvikudagur:

Morgun: Haframjöl með rúsínum,kakódufti, haframjólk og sætt með xylitol (gömul notalgía, í "heilsu" útfærslu)

Snakk: Hnetubland

Hádegi: Kjúllinn frá kveldinu áður....mmmm góður kaldur líka

Snakk: Fékk súkkó craving og keypti lítið sykurlaust dökkt stykki í Fjarðarkaupum

Ath: það er sætt með maltitol og lætur mann prumpa, svo það er algjört spari

Kvöld: tvö stk Delba brauð með pestóinu mínu

Saumaklúbbur: Einn lítill biti Tortill með spínatjukki og 2 nacho flögur (var erfitt að ráðst ekki á hlaðborðið, þvílíkar veitinar í boði, en ég lét þetta duga.

Kvöldsnakk: Eins sneið ný bökuð Bananakaka
Ath: Fyrsta tilraun mín í sykur og hveitilausum bakstri, kakan sætt með banana og xylitoli. Sneiðin var sárabót fyrir allt gúmmelaðið sem ég neitaði mér um fyrr um kvöldið :)

Fimmtudagur:

Morgun: Tvær Delba með Þorskalifur og linsoðnu eggi + safi

Hádegi: Bananakaka og te - var á hraðferð :/

Kaffi: Tvær delba og pesto + bananakaka og jurta te

Snakk: Safi

Kvöld: Hýðshrísgjón með brokkólí og Cashewhnetum - Wok steikt

Föstudagur:

Morgun: Tvær Delba með Þorskalifur og linsoðnu eggi. Vatn
ATH: kaupi niðursoðna þorskalifur í eigin olíu. Helli olíunni á flösku og tek með skeið eins og lýsi, en lifrina stappa ég á brauð eða hrökk kex, mjög gott að stappa linsoðið egg ofan á...algjör bomba :)

Hádegi: Þrjár Delba með hummus og ítölsku tómat salsa + safi nýkreistur

ATH: geri hummusinn sjálf, það er einfalt!

Kaffi: Banana kaka og haframjólk í glas

Kvöld: Tilbúin krónu kjúlli/bringan og wok steikt brokkolí og blómkál

Með leiknum: sykurlaust súkkulaði, smá flögur með salt only og kristall
ath: fékk heiftalega í magann...bara loft :S

Laugardagur:

Morgun: Smoothie - haframjólk,ber, banani,cashew,kókosolía kanill og vanilluduft allt sett í stóra vita-mixinn minn og skrrrr

Hádegi: Quinoa-grautur m/rúsínum,cashew banana og eggi...ný uppskrift mmm

Kaffi: Bananakaka og haframjólk...kakan góða búin

Kvöld: Semi-Heimagerð pizza með grænmeti, lime kristall
Ath: soldið nammidags style...úr tilbúnu spelt degi, bætti kúmen og sesam í botninn, paprika, brokkólí, spínat, hvítmygluostur, furuhnetur og ostur
- já svindl..en pizza er ekki pizza á osts :/

Kannski verður kosykvöld með piknik og kristal...ef daman mín leyfir!

Ps. ég skrifa megnið af þessu með annari hendi og dömuna (3ja mán) í hinni og því aðeins fleiri innsláttarvillur...skúpa.


Matur er mannsins megin...

Eins og ég hef áður nefnt lærði ég Náttúrulega-Næringafræði (Naturopathic Nutrition) á sínum tíma og hef í mörg ár haft gífulegan áhuga á heilnæmum lífstíl og hollum mat. Ég hef prófað margt og mikið í þeim efnum, farið úr einum öfgum í aðra eða meðalveginn góða.
Um þrítugt var ég einstæði móðir í sjúkraliðanámi en borðaði nær eigöngu lífrænt og keyrði takk fyrir upp í sveit í Hafnarfjörðinn (þar sem ég bý reyndar í dag) til þess eins að versla í Fjarðarkaupum. Þar var ódýrt og gott að versla lífrænt og gat ég fengið allt sem mig vantaði í einni búð, sem sparaði mér mikinn tíma og fyrirhöfn.
En í dag er öldin önnur,matarverð hefur rokið upp úr öllu valdi...og þegar ég hitti minn heittelskaða fyrir rétt rúmum þremur árum stækkaði fjölskyldan um 50% og fór ég smátt og smátt að nálgast það sem hægt er að kalla hefðbundið mataræði - borða venjulegt brauð, mjólk (þó lífræna), ost og aðrar mjólkurvörur,hvítt pasta og grjón, ólífræna ávexti og grænmeti, allt í einu var til cherrios og cornflakes í mínum skápum, lifrakæfa og svona margt sem drengirnir mínir höfðu aldrei áður séð í okkar húsum. Og áður en ég vissi var ég farin að borða allskonar óþvera.
Þetta ólíferni náði hæstu hæðum þessi jól, en þá innbyrgði ég meira af sælgæti og sóðamat en nokkru sinni fyrr, enda var heilsan ekki uppá marga fiska þessi jólin... fyrir utan hvað þetta var fljótt að setjast utan á mig.

Ég hef þó alltaf haldið fast í ákveðin prinsip, hvítan sykur kaupi ég ekki en nota þess í stað hunang og xylitol, ég nota eingöngu góðar olíur, td. lífræna ólífuolíu og kókosolíu, brún grjón og sætarkartöflur eru gjarnan á boðstólnum, mjólkin er lífræn, pakka matur er í algjöru lágmarki og sömuleiðs gos (þá má eiginlega bara vera glært og heita Kristall)

En fyrir rétt tæpum tveim vikum breytti ég um stíl og nú komin á hreint og lítið mengað mataræði.
Það þýðir:
- Enginn sykur (hvítur, hrár, hunang, agave osfv)og nota nú eingöngu xylitol eða steviu til að sæta líf mitt.
- Ekkert hveiti (þá freistast ég ekki til að borða brauð og kökur) en nota í staðinn rúg, spelt og hafra. (gæti þurft að henda þessu út ef hitt dugar ekki)
-Mínus mjólk, þá meina ég drekk ekki mjólk í glasavís, borða ekki jógúrt og skyrmat, nota ekki osta. En laumast enn í oggopons mozzarella, smá sýrðanrjóma svona ef það er alls ekki hægt að sleppa því.

Fæðan mín samanstendur af:

Prótein: Kjöt - lamb, folald og kjúlli (hreint og óunnið), Fiskur -ýsa, þorskur, lax, silungur, risarækja,humar (hreinn og óunnin) Egg & Hnetur.

Kolvetni: Brún stutt grjón, Delba rúgbrauð, Finn crisp hrökk kex, spelt brauð (Brauðhúsið)Hafrar (graut), Quinoa.

Ávextir og Grænmeti: Allt sem mér finnst gott og eins mikið og ég get. Djúsa amk einu sinni á dag og fæ með því móti góðan skammt af ávöxtum og grænmeti.
Borða mikið spínat, brokkólí, tómata, papriku, sætarkartöflur og avocado.
Djúsa; epli, gulrætur, gúrkur, rauðrófur, lime, sítrónu, engifer og sellerí.

Álegg: Egg , þorskalifur (úr dós), pestó (heimagert), hummus(heimagerður), gúrka, tómatar, smjör, hnetusmjör, avocado.

Snakk/millimála: Hnetubland (valhnetur, cashew, pekan og goijiber), sveskjur, döðlur, ávextir, epli með hnetusmjöri, egg, safi (nýkreistur).

Vökvi: Vatn, vatn, vatn, jurta-te, nýkreistur safi.

Úr þessu hráefni fæ ég allt sem ég þarf, get eldað góðan kvöldmat sem hentar mér og öllt karlkyns á heimilinu....og allir sáttir.

Branið grætur...

Á morgun kemur matseðill.

bæjó


Almennar upplýsingar um vefjagigt

Áður en ég greindist sjálf með Vefjagigt vissi ég lítið sem ekkert um þetta heilkenni, ég þekkti nafnið fibromyalgia úr bókum sem ég hef gluggað í gegnum tíðan í tengslum við næringar-þerapíu námið mitt, en aldrei gefið þessi sérstakan gaum þar sem ég hef ekki þekkt neinn með heilkennið. En núna þegar ég er komin "út úr skápnum" með þetta heilkenni í farteskinu þá allt í einu heyri ég endalausar sögur af konum með Vefjagigt, viðtöl í útvarpi, facebook síður osfv. Læknirinn minn sagði að þetta væri vaxandi vandamál hjá ungum konum (eins og mér) konum sem eru orðnar útkeyrðar fyrir aldur fram því þær ætla sér of mikið. Þær eru í fullri vinnu, með börn og stór heimili, sinna fjölskyldu og vinum, eru þrif og þvottakonur, eldabuskur, kennarar (heimanám barna), ástkonur, ráðgjafar, hunda og kattaþjálfarar, innkaupakonur, skipuleggjarar og jafnvel iðnaðarmenn. Í stuttu máli við sjáum um að heimurinn snúist fyrir fjölda manns (mann, börn og gæludýr). Hvað um það, einn góðan verður dag ertu um eða undir fertugu, útkeyrð á líkama og sál og komin með Vefjagigt.

Hér er almenn lýsing á Vefjagigt sem ég afritaði af vefjagigt.is:

Vefjagigt (e. fibromyalgia syndrome) er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni
(e. syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, fótapirringur, kuldanæmi, dauðir fingur (e. Raynaud´s phenomenon), dofi í útlimum, bjúgur, kraftminnkun, úthaldsleysi, minnisleysi, einbeitingarskortur og depurð.

Vefjagigtin getur þróast á löngum tíma og viðkomandi gerir sér litla grein fyrir í fyrstu að eitthvað óeðlilegt sé í gangi. Verkir sem hlaupa til dag frá degi, stirðleiki og yfirþyrmandi þreyta af og til eru oft byrjunareinkennin. Einkennin eru ekki viðvarandi í fyrstu, koma og fara, ný einkenni bætast við. Smám saman vindur sjúkdómurinn upp á sig þar til einkenni hverfa ekki langtímum saman. Einkennin eru mjög mismunandi milli einstaklinga, bæði af fjölda og hversu slæm þau eru. Vefjagigt getur verið mildur sjúkdómur þar sem viðkomandi heldur nær fullri færni og vinnugetu, þrátt fyrir verki og þreytu, en hann getur líka verið mjög illvígur og rænt einstaklinginn allri orku þannig að hann er vart fær um annað en að sofa og matast. Oftar rænir vefjagigtin aðeins hluta af færni til vinnu og athafna daglegs lífs. Þar sem ekki sjást nein ummerki um sjúkdóminn, hvorki á sjúklingnum, né í almennum læknisrannsóknum þá hafa þessir einstaklingar oft á tíðum mætt litlum skilningi heilbrigðisstarfsfólks, aðstandenda, vina eða vinnuveitenda.Enn þann dag í dag telja sumir að vefjagigt sé í raun ekkert annað en verkjavandamál sem geti talist eðlilegur hluti af lífinu og enn aðrir telja að um sé að ræða “ruslafötu greiningu” það er að allt sé kallað vefjagigt sem ekki er hægt að greina sem aðra “almennilega sjúkdóma”.


Dagbók konu með vefjagigt.

Tilgangur með skrifunum mínum hér er ákaflega sjálfhverfur, þetta er Dagbókin mín og hjálpargagn í barráttu við Heilkennið Vefjagigt. Það er öllum frjálst sem hafa "áhuga" á vefjagigt að lesa þetta blogg og vonandi ef ég næ góðum árangri í baráttunni verður þetta einhverjum innblástur og aðstoð í sinni baráttu. En sumsé fyrst og fremst er ég að skjalfesta eigin tilraunastarfsemi svo að ég átti mig sjálf á því hvernig mér miðar. Svo er það líka gott aðhald í því að opinbera sigra og ósigra.

Eftir að ég gekk með og eignaðist mitt þriðja barn 37 ára gömul fór ég að fá verki um allan líkamann. Eftir tvær heimsóknir til heimilislæknis og blóðprufur, var niðurstaðan sú að af öllum líkindum væri ég með svokallaða vefjagigt.

Gigtarlæknir staðfesti svo gruninn nokkru síðar. Hann bauð mér sveflyf eða róandi eins og hann kallaði það og verkjalyf sem ég afþakkaði hvor tveggja þar sem ég er með barn og brjósti og finnst það í sjálfu sér engin lausn.

Heimilislæknirinn var aðeins hjálplegri en hann ráðlagði mér að taka þetta í eigin hendur, stunda líkamsrækt, fara í sjúraþjálfun, nudd eða bara hvað eina sem virkar fyrir mig, en hreyfing og að draga úr stressi væru besta leiðin til að draga úr óþægindum vefjagigtar, jú og auðvitað væri gott að passa hvað færi ofan í mig en það skipti kannski ekki sköpum.

Ég aftur á móti hef trölltrú á lækningarmætti heilnæms mataræðis og góðra bætiefna og hef því takið þá stefnu að gjörbylta mataræði síðustu ára og hreinsa út allt það sem líkaminn þarf ekki nauðsynlega til að þrífast og það sem tefur hans eigið batakerfi.

Nú er liðin vika og 2 1/2 dagur síðan ég tók SYKUR, HVEITI og u.þ.b.l 95% af mjólkurvörum úr mataræði mínu. Á þessum tima hef ég einu sinni misstigið mig og gúffaði í mig einni sneið að súkkulaðiköku sem mágur minn kom með og skildi eftri fyrir framan nefið á mér.                              En síðan þá hef ég staðið mig vel og ég finn að ég er orkumeiri og líður betur þó ég sé alls ekki orðin verkjalaus.

Semsagt hér á þessari ágætu síðnu mun ég halda úti matar og bætiefna dagbók,skrá niður alla hreyfingu sem ég stunda, það sem ég geri til að draga úr streitu og næra andlegu hliðina.

 

Vefjagigtin mín lýsir sér svona:

Verkir í vöðvum og liðum - lurkum lamin allann daginn

Liðir sérlega aumir og stífir á nóttunni, snemma morguns og eftir kyrrsetu. 

Hausverkir

Aukin vöðvabólga og máttleysi

Svefnleysi, lausari svefn og erfiðara að sofna 

Blóðsykursfall

Orkuleysi og þreyta

Verkir í tönnum (vont að tyggja hart og seygt)

Erfitt að ganga upp og niður tröppur.

Verkir í hnjám

Minnisleysi og vonleysi (depurð á köflum)

Kuldanæmi - þoli illa að verða kalt

  

Það sem mér finnst hjálpa:

Góður svefn

Heit sturta og böð - algjört möst til að komast í gang á morgnana

Klæða mig vel og verða ekki kalt.

Borða ekki sykur - eykur orku

Drekka mikið vatn - losar bjúg og eykur orku

Að vera á léttri hreyfingu - heldur manni mjúkum og heitum

Að passa að reyna ekki mikið á mig ( td í þrifum, burði og öðrum hamagangi)

Að forðast streitu (fer illa í skapið á mér)

 

Jæja þetta er gott í bili...skyldan kallar :) 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband